Færsluflokkur: Bækur
Gísli Pálsson, mannfræðingur og prófessor, hefur ritað ævisöguna Hans Jónatan, maðurinn sem stal sjálfum sér. Fjallar hann þar um ævi þessa manns, sem fæddist árið 1882 á karabískri eyju sem Danir höfðu keypt af Frökkum og notuðu til sykurframleiðslu. Sykurinn framleiddu ánauðugir menn og var Hans Jónatan ambáttarsonur, en faðir hans var ritari húsbónda hans.
Ævi Hans Jónatans er með ólíkindum. Hann barst til Kaupmannahafnar, tók þátt í orrustunni á skipalaginu við Kaupmannahöfn árið 1801, hinum svonefnda skírdagsslag og gat sér gott orð. Þar sem hann hafði strokið frá úsmóður sinni (stolið sjálfum sér eins og verjandi hans orðaði það) var hann dæmdur eign hennar. En hann gaf sig ekki fram heldur fór til Íslands.
Í bókinni eru raktar þær heimildir sem til eru um Hans Jónatan og seilst víða til fanga. Gísli hefur grafið upp ýmislegt með þrautseigju sinni og eljusemi og er með ólíkindum hvernig honum tekst að tengja efnið saman.
Bókin er nokkuð mörkuð af störfum hans sem kennara á sviði mannfræði. Iðulega varpar hann fram spurningum sem hann svarar iðulega fljótt og vel, en sumar hanga í loftinu og birtast svörin síðar. Lengir þetta að vísu frásögnina en gefur bókinni þokkafullan blæ og einkar persónulegan.
Bókin er ádrepa á hið tvöfalda siðferði sem þrælahaldarar allra tíma iðka og jafnvel vér nútímamenn sem skirrumst ekki við að kaupa varning sem vitað er að framleiddur sé af þrælum.
Gísli miðlar óspart af yfirburða þekkingu sinni á efninu, enda hefur honum verið hugleikið efni, sem snertir þrælahald og þróun þess.
Bókin er jöfnum höndum ævisaga, margofin samtímasaga, hugleiðingar um tengsl, þróun, samskipti og örlög, margs konar tilfinningar og hugrenningar sem lesandanum virðist sem beri höfundinn næstum ofurliði á stundum. Gísli skirrist ekki við að taka afstöðu til efnisins um leið og hann leggur hlutlægt mat á ýmislegt sem varðar þá sögu sem greind er í bókinni.
Ævisaga Hans Jónatans er einkar lipurlega skrifuð, málfarið fallegt, en fyrst og fremst eðlilegt. Virðing Gísla fyrir viðfangsefninu er mikil. Hann hefur unnið bókina í samvinnu við fjölda ættingja Hans Jónatans, fræðimenn á ýmsum sviðum og í nokkrum löndum.
Ævisaga Hans Jónatans er verðugur minnisvarði um manninn frá Vestur-Indíum sem Íslendingar tóku vel og báru virðingu fyrir, manninn sem setti mark sitt á heilt þorp og mikinn ættboga, þótt þrælborinn væri, mann sem samtíðarmenn hans á Íslandi lögðu ekki mat kynþáttahyggju á.
Pistilshöfundi er enn minnisstætt þegar ungur piltur frá Bandaríkjunum, dökkur á hörund, gerðist sjálfboðaliði á Blindrabókasafni Íslands. Ég hafði orð á því við hann að mér væri tjáð að hann væri þeldökkur. Það var leitt, sagði hann á sinni góðu íslensku. Þá finnst þér sjálfsagt lítið til mín koma. Mér varð hverft við og vildi vita hvers vegna hann segði þetta. Vegna þess að Íslendingar amast sumir við mér, svaraði hann. Þegar ég innti hann nánar eftir þessu svaraði hann því að flestir tækju sér vel og vildu allt fyrir sig gera. En aðrir sendu sé tóninn á götum úti og gelta jafnvel á eftir mér.
Þá sagði ég honum að ástæða þess að ég spyrði væri Hans Jónatan, en mig fýsti að vita hvort hann vissi eitthvað um forfeður sína. Upp frá þessu ræddum við talsvert um þær áskoranir sem bíða þeirra sem eru ekki steyptir í sama mót og hin svokallaða heild.
Gísli Pálsson man ef til vill atburð sem varð á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum einhvern tíma upp úr 1960. Um það leyti var afrískur maður í bænum einhverra erinda. Vestmannaeyingur nokkur, sem ekki skal nefndur hér, sá ástæðu til að veitast að honum og veita honum áverka. Varð sá atburður illa þokkaður í bænum.
Gísla Pálssyni og afkomendum Hans Jónatans er óskað til hamingju með þennan merka minnisvarða sem Hans Jónatan hefur verið gerður.
Bækur | 25.11.2014 | 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bækur | 23.2.2014 | 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í haust las ég Dægradvöl, en Skólavefurinn hefur gefið hana út sem rafbók og síðan kom Sæmd Guðmundar Andra Thorssonar.
Í Dægradvöl gerir Benedikt upp líf sitt og horfist í augu við sjálfan sig, kosti sína og galla. Hann gerir m.a. stuttlega grein fyrir söguefni því sem Guðmundur Andri fjallar um í Sæmd. Benedikt virðist álíta sig hafa goldið föður síns, en Vilhjálmur Þ. Gíslason sagði okkur Þorvaldi Friðrikssyni eftir Steingrími Thorsteinssyni, að Sveinbjörn hefði ekki haft embættismannastéttina í Reykjavík með sér, þegar "pereatið" reið yfir. Því fór sem fór. Er það meðal annars rakið til samskipta tengdaföður hans við Jörund hundadagakonung. Um þetta fjallar Benedikt á sinn sérstæða hátt í Dægradvöl.
Guðmundur Andri hefur skapað ódauðlegt listaverk með Sæmd. Þótt ævinlega megi eitthvað að öllu finna er bókin í heild sinni forkunnar vel skrifuð, persónusköpunin heilsteypt og atburðarásin samfelld. Því er full ástæða til að óska Guðmundi Andra hjartanlega til hamingju með þær viðtökur sem bókin hefur fengið og þann heiður sem honum hefur verið sýndur.
Bækur | 4.2.2014 | 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú verður bæklingurinn senn gefinn út sem rafbók. Rafbókin, sem er á EPUB-sniði, er í raun tilbúin til dreifingar og verður dreift endurgjaldslaust á netinu. Í henni er ágrip sögu skipsins á þýsku og ensku. Þeir, sem hafa hug á að skoða bæklinginn, geta snúið sér til undirritaðs, annaðhvort símleiðis eða með því að senda póst á arnthor.helgason@gmail.com
Bækur | 1.6.2013 | 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stöðugt fjölgar þeim bókum sem eru aðgengilegar sem rafbækur. Sum ritverk eru aðgengileg sem pdf-skjöl en önnur sem rafbækur á EPUB-eða MOBI-sniði.
Ég hef að undanförnu kynnt mér ýmislegt sem snertir sögu sjávarútvegsins. Fagnaði ég því að sjá að hið ágæta verk Jóns Þ. Þórs, saga sjávarútvegsins, væri nú heimil öllum til niðurhals. Ekki var þó allt sem sýndist í fyrstu, samanber bréf mitt til Atvinnumálaráðuneytisins, sem hér birtist.
Greinilegt er að frágangur þessa þriggja binda verks er ekki í neinu samræmi við aðgengisstefnu stjórnvalda. Viðleitnin var góð, en betur má ef duga skal.
BRÉFIÐ TIL RÁÐUNEYTISINS
Heiðraði viðtakandi.
Í upphafi skal tekið fram að ég nota skjálesara með talgervli og blindraletri.
Vefsíða Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins er allvel aðgengileg. Þar sem ég hef verið að kynna mér ýmislegt sem snertir sögu sjávarútvegs á Íslandi fagnaði ég því að sjá að Saga sjávarútvegsins eftir Jón Þ. Þór væri nú aðgengileg á vefnum. Halaði ég því niður öllum bindunum á pdf-sniði. Eftirfarandi kom í ljós:
1. Talsvert vantar á að fyrstu tvö bindin séu sómasamlega unnin. Til dæmis skilar bókstafurinn ð sér sjaldan. Það má þó notast við eintakið. Þá hefur engin tilraun verið gerð til að setja krækjur í efnisyfirlit svo að erfitt er að fletta í skjölunum.
2. Þriðja bindið er algerlega óaðgengilegt þeim sem nota skjálesara fyrir blindraletur eða talgervil. Það virðist hafa verið gengið frá síðunum sem hreinum myndum og því geta skjálesarar ekki nýst við lesturinn.
Ég fer þess vinsamlegast á leit við hæstvirt ráðuneyti að ráðin verði bót á þessu með 3. bindið. Síðan þarf ráðuneytið að láta lagfæra 1. og 2. bindi verksins svo að þaað verði sæmilega aðgengilegt þeim sem hyggjast nýta sér verkið til útgáfu.
Ég hef rætt þessi mál við höfundinn og veldur það honum vonbrigðum hversu staðið hefur verið að frágangi þess á vefnum.
Virðingarfyllst,
Arnþór Helgason
---
Arnþór Helgason, vináttusendiherra,
Tjarnarbóli 14,
170 Seltjarnarnesi.
Sími: 5611703
Farsími: 8973766
Netföng: arnthor.helgason@simnet.is
arnthor.helgason@gmail.com
http://arnthorhelgason.blog.is
http://hljodblog.is
Bækur | 16.3.2013 | 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sagan byggir á atburðum sem sagt er frá í Eyrbyggju. Þórólfur, sem uppnefndur var bægifótur eftir meini sem hann hlaut í einvígi, gerist illvígur með aldrinum og eftir dauðan marg-gengur hann aftur.
Skáldsagan lýsir hugrenningum draugsins á síðasta skeiði hans og hvernig eðli hans mótaðist af aðstæðum. Ármann, sem er gagnkunnugur íslenskum fornbókmenntum, greinir einnig goðaveldið og miskunnarleysi þess gagnvart þeim, sem þóttu ekki standa jafnfætis ættstórum mönnum.
Sagan er áleitin og einstaklega vel sögð. Orðfærið er auðugt og sagan hrífur lesandann með sér.
Margir höfundar hafa leitað í fornbókmenntirnar og hefur tekist það misvel. Glæsir hlýtur að teljast eitt af meistaraverkum íslenskra bókmennta á þessari öld, jafnvel þótt Íslendingar hætti að skilja tungu sína og Glæsi verði að þýða á ensku.
Til hamingju, Ármann.
Bækur | 2.3.2013 | 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar Bókatíðendum er flett kemur í ljós að útgáfa rafbóka hefur aukist og koma nú mun fleiri rafbækur út en í fyrra. Allmargar þeirra eru endurútgefnar bækur og er það vel.
Ýmsar leiðir er hægt að fara til þess að lesa rafbækur. Margir velja sér rafbókalesara, en aðrir nota tölvurnar. Hlynur Már Hreinsson vakti athygli á viðbót við Firefox-vefskoðarann, sem nefnist Epubreader. Forritið er sáraeinfalt og dugar til að lesa flestar rafbækur. Það er þó vart sambærilegt við forrit eins og Digital Editions frá Adobe eða EasyReader frá Dolphin Computer Access, sem er sérhannað handa blindum eða sjónskertum lesendum. En Epub-lesarinn á Mozilla er þjáll í notkun og full ástæða til að benda fólki á hann.
Frágangur rafbóka
Að undanförnu hef ég keypt rafbækur frá Skinnu og Emmu og hafa þær allar verið aðgengilegar þeim tækjum og tólum sem ég nota. Ég hef þó orðið var við að frágangur rafbókanna er mjög misjafn. Nokkrar skáldsögur hef ég keypt eða halað niður þeim sem eru ókeypis. flestar eru vel frá gengnar, auðvelt að blaða í þeim, fletta á milli kafla, greinaskila o.s.frv.
Enn er lítið til af hand- og fræðibókum sem gefnar hafa verið út sem rafbækur á íslensku. Lýðræðissetrið virðist einna athafnasamast á þessum vettvangi, en það hefur gefið út 5 rit: Lýðræði með raðvali og sjóðvali á fjölda tungumála, Bókmenntasögur, Hjáríki, Þróun þjóðfélagsins og Sjálfstæði Íslands. Þessar bækur eru allar eftir Björn S. Stefánsson, sem stendur fyrir Lýðræðissetrinu. Það er þeim sammerkt að þær eru vel upp settar og firna vel frá þeim gengið. Frágangur hefur verið í höndum fyrirtækisins Tvístirnis.
Eina rafbók, ævisögu þekkts stjórnmála- og fræðimanns keypti ég um daginn. Hún er skemmtileg aflestrar. Nokkuð vantar þó á að hún sé skipulega uppbyggð sem rafbók og virðist ókleift að nota hefðbundnar rafbókaaðferðir til þess að fletta bókinni.
Vafalaust er hér um barnasjúkdóma rafbókanna að ræða. En fyrirtæki eins og http://www.skinna.is/ þarf að leggjametnað sinn í að bækur, sem teknar eru til sölu, standist kröfur sem gerðar eru um gæði og uppbyggingu rafbóka.
Nýr heimur
Þegar blaðað er í Bókatíðindum verður ljóst að úrval rafbóka er orðið svo mikið hér á landi að það opnar ýmsum, sem geta ekki nýtt sér prentað letur, nýjan heim. Vænta má þess að fræðimenn sjái sér aukinn hag í að gefa út rit sín með þessum hætti. Má nefna sem dæmi eina af fáum fræðibókum, sem komið hafa út að undanförnu, en það er bókin Dr. Valtýr Guðmundsson, ævisaga. Þótt umbroti bókarinnar sem rafbókar sé nokkuð ábótavant er þó mikill fengur að henni. Á höfundurinn, Jón Þ. Þór, sagnfræðingur, heiður skilinn fyrir framtakið.
Bækur | 19.11.2012 | 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bókin Ríkisfang: ekkert, sem Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur skrifað og byggð er á viðtölum við konur af palestínsku þjóðerni, sem settust að á Akranesi árið 2009, lýkur upp fyrir lesendum glöggri mynd af þeim hryllingi, sem íbúar Íraks urðu að þola, eftir að Bandaríkjamenn réðust inn i landið í mars 2003 í leit að gereyðingarvopnum, sem aldrei fundust. Konurnar greina frá miskunnarleysinu, ofbeldinu og grimmdinni, sem losnaði úr læðingi þegar innviðir samfélagsins brustu. Jafnframt er brugðið ljósi á stöðu palestínskra flóttamanna, sem margir eru án ríkisfangs. Áhrifarík er frásögn Sigríðar af því þegar hún leitaði uppi eydd þorp, sem Ísraelsmenn (gyðingar, Síonistar) eyðilögðu og lögðu undir sig við stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Þá þegar virtu þeir enga samninga og hafa haldið því áfram undir öruggri vernd Bandaríkjamanna.
Framan af var fréttaflutningur frá Palestínu mjög litaður af hagsmunum Gyðinga og verndara þeirra, Bandaríkjamanna og Breta, en smám saman snerust vopnin í höndum þeirra. Til þess þurfti að vísu hermdarverk, sem öfluðu Palestínumönnum hatursmanna á meðal Gyðinga og Vesturlandabúa. en þessi hryðjuverk voru þó smámunir einir hjá því sem íbúar Palestínu þurftu að þola af hálfu innrásarafla, sem studd voru af Vesturveldunum.
Íslendingar hafa ekki staðið saklausir hjá í þessum hildarleik. Þeir studdu stofnun Ísraelsríkis og tveir valinkunnir Íslendingar settu þjóðina á lista yfir hinar staðföstu þjóðir, sem studdu innrásina í Írak. En gert er gert og sumt er hægt að bæta, annað ekki. Sú ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar að veita palestínsku flóttafólki móttöku og landvist, er einungis örlítill plástur á það holundarsár, sem Vesturveldin hafa í raun veitt Palestínumönnum.
Í bókinni lýsa konurnar sambúð ólíkra trúarhópa, sem sundraðist við innrásina í Írak. Þær lýsa einnig afstöðu sinni til annarra trúarhópa en þeirra, sem játa islam, en múslimar hafa jafnan þótt umburðarlyndir þrátt fyrir öfgahópa sem þrífast innan trúarbragðanna eins og á meðal kristinna manna. Bókin birtir mynd af harðduglegum og þrautseigum mæðrum, sem sigrast hafa á erfiðleikum, sem hefðu bugað flesta þá, sem orðið hefðu að þola annað eins og þær hafa reynt. Það fer vart hjá því að lesandinn fái öðru hverju kökk í hálsinn og tárist, þegar lesnar eru látlausar og einlægar frásagnir kvennanna af sorgum þeirra og gleði.
Á meðan ég las bókina samþykkti Alþingi að viðurkenna ríki Palestínumanna. Þótt ef til vill sé nokkuð í land að eiginlegt ríki þeirra verði að veruleika, er þó samþykkt alþingis mikilvægt skref í þá átt að Palestínumenn nái rétti sínum. Vonandi verða hin illu öfl, sem ráða mestu innan Ísraelsríkis, brotin á bak aftur.
Sigríði Víðis Jónsdóttur og viðmælendum hennar eru fluttar einlægar þakkir og árnað heilla.
Bækur | 30.11.2011 | 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Yrsa Sigurðardóttir, byggingaverkfræðingur, er snjall rithöfundur. Sögur hennar eru ekki formúlukenndar eins og sumt sem Dan Brown hefur ritað og leggur Yrsa sig fram um að kynna sér aðstæður á þeim stöðum sem hún ritar um.
Sagan "Ég man þig" fjallar um dularfulla atburði sem gerast á Hesteyri og óvænt tengsl millum nútíðar og þátíðar. Þar er magnaðri draugagangur á ferð en þegar sjálfur djákninn á Myrká gekk aftur og tekur því fram sem Miklabæjar-Solveig hefur verið sökuð um.
Persónusköpun Yrsu í sögunni er prýðileg og atburðarásin grípur lesandann jafnföstum tökum sem ímyndaðir, ískaldir draugsfigur þegar þeir kreppastað hálsi fórnarlambsins sem má sér enga björg veita. Reyndar neyðist höfundur til þess að skjóta örítið yfir markið undir lok bókarinnar til þess að losna úr eins konar ógöngum, en það er smávægilegt miðað við það sem vel hefur tekist í bókinni.
Yfirleitt skrifar Yrsa allgott mál. Þó hefur hún látið undan vissum tilhneigingum og virðist forðast ýmislegt sem talið hefur verið gott og gilt um aldaraðir hér á landi.
"Gerðu það?" virðist vera að hverfa úr málinu og í bók Yrsu segir fólkið "Plís?"
Þá eru menn hættir að fást við hitt og þetta eða taka á hinu og þessu heldur tækla menn allt millum himins og jarðar. Það eru ekki mörg ár síðan undirritaður vissi ekki hvað þessi sögn þýðir. Ef til vill hefur farið eins fyrir Íslendingum hinum fornu þegar þeir þurftu að kyngja tökuorðum úr ensku sem bárust hingað með kristninni og svo hefur víst verið á öllum tímum.
Draugasaga Yrsu Sigurðardóttur er skemmtileg bók og hleypir huganum á heilmikið flug. Vafalaust á eftir að gera eftir sögunni magnaða draugakvikmuynd sem fer sigurför um allan heim og sópar að sér verðlaunum. Þar til að því kemur eru lesendur þessa bloggs eindregið hvattir til að kynna sér þessa mögnuðu draugasögu sem er verðugur arftaki hefðbundinna, íslenskra draugasagna.
Bækur | 6.2.2011 | 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Furðustrandir eru skyldastar Grafarþögn og Konungsbók. Þótt vissra þreytumerkja gæti hjá höfundi bregðast Furðustrandir þó ekki væntingum lesandans og halda honum föngnum þar til bókinni hefur verið lokið. Arnaldur vinnur skemmtilega. Þar sem Furðustrandir gerast á Austfjörðum velur höfundurinn nöfn á persónum sem eru algeng þar og sitthvað fleira bendir á vönduð vinnubrögð.
Galdur höfunda er að skilja lesendur eftir í eins konar tómarúmi og það tekst Arnaldi ágætlega í lok bókarinnar.
Góða skemmtun.
Bækur | 11.12.2010 | 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 319771
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar